Íslensk nútímamálsorðabók

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Íslensk nútímamálsorðabók er nýtt verk sem eingöngu er birt á vefnum. Orðabókin er búin til hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) í Reykjavík. Orðaforðinn er á við meðalstóra orðabók, um 50 þúsund uppflettiorð. Beygingar orðanna eru gefnar með tenglum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Víða er að finna myndskreytingar við orðin og ennfremur eru hljóðritanir á framburði þeirra.

Verkefnið hefur verið í vinnslu frá árinu 2013. Undirstaða þess er margmála orðabókin ISLEX sem einnig er á vegum SÁM.

Íslensk nútímamálsorðabók lýsir orðaforðanum í íslensku frá því um 1950 til dagsins í dag. Einnig er hér að finna ýmis mikilvæg orð úr eldra máli svo og forníslensku sem vænta má að nemendur geti rekist á í námi sínu (t.d. bolöxi, fjörbaugsgarður, hjálmvölur og jarteikn). Af og til bætast ný orð við orðabókina og endurbætur eru stöðugt gerðar á orðskýringunum og notkunardæmunum.

Ritstjórar Íslenskrar nútímamálsorðabókar eru Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir. Þar sem orðabókin er að miklu leyti byggð á öðru verki, islex.is, vísast til upplýsinga á þeim vef um aðra starfsmenn sem átt hafa hlut að máli.

Málræktarsjóður styrkti vinnu við val á færslum úr Málfarsbankanum og málsháttum sumarið 2019.

loðin leit
texti
© Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Árnagarði við Suðurgötu, 101 Reykjavík